top of page
Writer's pictureUnnar Erlingsson

Af hverju ég gefst ekki upp


Unnar Erlingsson - mynd: Friðþjófur Helgason
Unnar Erlingsson - mynd Friðþjófur Helgason

Þessi skrif mín undir myllumerkinu "ekki gefast upp" hófust um mitt ár 2016. Þá hafði ég í rúmt ár glímt við erfið veikindi sem engin skýring fannst á. Ég upplifði mig í algeru myrkri. Það var engin meðferð, engin lyf, lítil eða í það minnsta óljós von um bata. Engin svör um hvort ég myndi ná mér, hversu mikið eða hvenær. Í þeim aðstæðum var augljóst mikilvægi þeirra sem standa mér næst og hvöttu mig áfram. Í fyrsta sinn á lífsgöngunni fann ég hversu stutt var í vonleysið, myrkur og einangrun. Þegar maður hættir að geta gert það sem maður getur og hefur alltaf gert, verður auðvelt að líta á sig sem auman pappír. En fólkið í kringum mig sá til þess að þannig færi ekki, með stöðugri hvatningu, bæði í orði og ekki síður verki. Aðstoð var allstaðar að finna og ef ég leitaði ekki að henni, þá kom hún til mín í formi heimsókna, gjafa, uppörvandi orða og verka.

Það er svo auðvelt að segja að uppgjöf sé ekki valkostur. Það er líka auðvelt að skilja það, sjá hvað það er mikið kommon sens. Allt er betra en uppgjöf. En þegar þú stendur einn í myrkrinu og veröldin sem þú telur þig þekkja virðist öll vera á hvolfi, þá er erfitt að bera fyrir sig heilbrigða skynsemi, hún getur líka fokið út um gluggann án þess að þú getir nokkuð við því gert.

Veikindin eru minn veruleiki enn í dag en ég er viss um að ég muni vinna mig í gegnum það með góðri hjálp, leiðsögn og ekki síst hvatningu þeirra sem í kringum mig eru. Með hjálp og leiðsögn fagfólks og hvatningu þeirra sem næst mér standa, fjölskyldu og vina. Líklega munum við aldrei meta mikilvægi þeirra meira en við svona kringumstæður og líklega verður okkur aldrei betur ljóst hversu blessuð við erum að eiga góða að.

Ég ætla ekki að gefast upp!


Ljósmynd: Friðþjófur Helgason

549 views0 comments

Comments


bottom of page