Hvaða áhrif þú hefur á líðan fólks í kringum þig, segir margt um hvaða manneskju þú hefur að geyma.
Áhrifavaldar hafa verið áberandi unandarið í tengslum við umræðu um áhrif samfélagsmiðla. Auðvitað höfum við öll og alltaf verið áhrifavaldar, en í dag með tilkomu samfélagsmiðla geta áhrif okkar verið langt umfram það sem við höfum áður kynnst. Takist okkur að safna nógu mörgum fylgjendum, sem við höfum beinan aðgang að næstum því hvenær sem okkur dettur í hug, má segja að við séum okkar eigin útsendingastjórar. Þannig er hægt að miðla hugmyndum, skoðunum og selja allt milli himins og jarðar, leynt eða ljóst.
Sitt sýnist eðlilega hverjum um þessa þróun en vonandi hefur hún vakið okkur til umhugsunar um áhrifin sem við höfum og getum haft á fólkið í kringum okkur. Hvort heldur með því efni sem við deilum meðal fólks á samfélagsmiðlum eða bara því sem við segjum og gerum í okkar nærumhverfi.
Mér er hugsað til hinnar 15 ára gömlu Gretu Thunberg, sem virðist hafa tekist að hrinda af stað vitundarvakningu um umhverfismál meðal ungs fólks um allan heim, með því að standa með sannfæringu sinni og leyfa heiminum að fylgjast með.
Auðvitað getum við ekki öll verið Greta Thunberg, en öll viljum við hafa góð og jákvæð áhrif. Og það getur eitt og sérhvert okkar.
Hvetjum hvert annað til góðra verka. Verum hvert öðru góð fyrirmynd.
-Ljósmynd: Gunnar Gunnarsson / úr Fljótsdal
コメント