top of page
Writer's pictureUnnar Erlingsson

Betra að vera öruggur en hryggur

Undanfarinn sólarhring virðist algengustu innlegg á snjáldurskinnu vera lögfræðilegur fyrirvari um efni sem birtur er á miðli ameríska stórfyrirtækisins. Titillinn er umdeilanlega skemmtileg þýðing á upphafi bréfsins á upprunamáli þess, Better safe than sorry, eftir að hafa verið rennt í gegnum þýðingartól Google. Annars risafyrirtækis sem hagnast á meðferð upplýsinga notenda sinna.


Betra að vera öruggur en hryggur
Betra að vera öruggur en hryggur

Á sama tíma hafa sést álíka mörg innlegg sem benda vinum sínum á að um plat sé að ræða. Að þeir sem eru að deila þessu í góðri trú, séu í raun að sóa tíma sínum og annarra. Það þarf litla fyrirhöfn til að komast að því að um gabb sé að ræða. Tilhæfulaust og um leið saklaust, sem betur fer. Með einfaldri glöggvun kemur í ljós að þetta hefur verið í gangi síðan í ársbyrjun 2015 og hefur skotið upp kollinum á veggjum Fésbókarfélaga annað veifið síðan þá.


Það er vissulega betra að vera öruggur en hryggur, en í þessu tilfelli fylgir því ekkert öryggi að gera eins og um er beðið. Reyndar þvert á móti. Fólk er einfaldlega að falla í þá gryfju að bera út tóman þvætting í góðri trú og staðfesta þannig hversu auðvelt er að fá dreifingu á ósönnu (fals) efni hjá grunlausu fólki. Á hinn boginn er jákvætt hve margir eru tilbúnir að stökkva til og leiðrétta mistökin, en þá er líklega skaðinn skeður.


Það er ekkert sem bendir til að skaðinn sé stór í þessu tilfelli en lærdómurinn er að við þurfum að vera meðvituð. Lítið er vitað um uppruna þessara skilaboða, samt er fjöldi fólks tilbúið að deila því og hvetja aðra til hins sama. Best er auðvitað að deila ekki efni nema maður hafi einhverja vissu um uppruna og geti treyst innihaldi þess.


Ástæða svona dreyfinga er auðvitað óljós, en mögulegur tilgangur getur verið að beina umræðu eða skoðun í ákveðna átt, afvegaleiða umræðu, jafnvel sverta eða bæta almenningsálit gagnvart ákveðnum málstað eða fyrirtæki. Í þessu tilfelli er líklegt að einhver hafi bara ætlað að vera fyndinn og hlær eflaust í hvert skipti sem einhver fellur í gildruna og deilir.


Upplýsingar eru mikilvægar. Líklega það mikilvægasta og verðmætasta í heiminum í dag. Göngum vel um þær og af virðingu. Deilum því sem við treystum og treystum öðrum fyrir. Hvort heldur það eru persónulegar upplýsingar okkar eða efni sem við deilum frá öðrum stöðum þessa nýfundna heims sem samfélagsmiðlar eru.

99 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page