Ég hef oft velt fyrir mér hvar mörk dags og nætur liggja.
Hér á Íslandi eru þau mörk líklega óskýrari að mörgu leiti en víða annarsstaðar, þar sem lengd dags og birtutími er afar misjafn eftir árstíma og jafnvel tíðarfari. Víðast hvar annarsstaðar á byggðu bóli fer það ekki framhjá neinum þegar kvöldið kemur eða morgun brestur á. Það gerist einfaldlega þegar sólin sest, eða birtist aftur að morgni.
Það er kannski helsta ástæða þess að mörk dags og nætur í okkar samfélagi, eru almennt afar persónubundnar. Í það minnsta stjórnast það af fleiri þáttum en sólarganginum.
Það sem sumir tala um sem snemma morguns, vilja aðrir meina að sé um miðja nótt. Seinnipartur dags er að sumra mati rétt eftir hádegi og annarra rétt fyrir kvöldmat. Seint á kvöldin er eftir miðnætti hjá mörgum, sem aðrir líta á sem miðja nótt, eins og reyndar nafnið gefur til kynna.
En svona hefur þetta ekki alltaf verið. Tungu eldra fólks er gjarnan tamt að nota heiti fyrir fleiri tíma dagsins og við sjáum þessum heitum einnig bregða fyrir í rituðu máli.
Samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands er sólarhringnum skipt í fjóra hluta: Morgun, dag, aftann og nótt. Þar kemur einnig fram að samkvæmt fornri reglu var hverjum hluta síðan skipt í tvær eyktir.
Eyktirnar eru þessar: Ótta (kl. 3), miður morgunn (kl. 6), dagmál (kl. 9), hádegi (kl. 12), nón (kl. 15), miður aftann (kl. 18), náttmál (kl. 21) og miðnætti (kl. 24).
Séu þessar upplýsingar lagðar til grundvallar þá lítur þetta svona út fyrir okkur nútímafólkið: Nótt (kl. 21-3), miðnætti (kl. 24), morgun (kl. 3-9), dagur (kl. 9-15), miðdegi (kl. 12) og aftann eða kvöld (kl. 15-21).
Ég sé reyndar fyrir mér að margir kunna að finnast þetta undarleg skilgreining á tímum dagsins. Líklega er það þannig að nótt byrjar hjá flestum eftir miðnætti og dagurinn á hádegi. Morgun frá því við vöknum fram að hádegi, miðdægur um kaffileitið og kvöld frá kvöldmat fram að miðnætti, eða þar um bil. Það má kannski nærri láta að við höfum seinkað tímanum um þrjár klukkustundir frá því sem áður var. Við höfum þá þegar breytt klukkunni eftir alltsaman.
Það hlýtur að vera kostur fyrir samfélag að búa að sameiginlegum skilningi á almennum nöfnum og hugtökum. Mér þykir það góðu heilli þegar við höldum í gömul heiti, eða búum til ný hugtök sem gæðir mál okkar lífi og eykur fjölbreytni talmáls okkar. Þannig hefur orðið síðdegi fest sig í sessi í seinni tíð, sbr. síðdegisútvarp sem byrjar eftir klukan fjögur á daginn. Þá þykir mér flott að nota orðið dögurður, sem áður fyrr var notað yfir morgunverð, en er í dag notað í stað enska orðsins „brunch“ svo annað dæmi sé tekið. Einnig fannst mér virkilega flott í leikskóla barna minna, þar sem borin er fram nónhressing, sem hljómar mun betur en kaffitími fyrir börn á leikskólaaldri eða drekkutími eins og ég var alinn upp við.
En hvað sem vangaveltum mínum liður situr eftir þessi hvatning til okkar: Gæðum tungu okkar lífi. Höldum í það sem gott er og verum dugleg að smíða nýyrði og ný orð úr gömlu og góðu efni.
Unnar Erlingsson
Grafík: macrovector / Freepik
Comments