Hópurinn "Dýrt innanlandsflug - þín upplifun" ber nokkuð leiðandi nafn fyrir þá umræðu sem fer fram. En um leið er heitið lýsandi fyrir það sem við sem til hans stofnuðum upplifðum og vildum athuga hvort við værum einir um að gera. Þó er ekki svo að í hópnum sé eingöngu fólk sem finnst innanlandsflug vera of dýrt, sem helst má sjá á athugasemdum þegar fólk segir sögu sína um verðlag sem því ofbýður og svör verða eitthvað á þá þessa leið: "þetta er nú ekki mikið miðað við..." eða "mér finnst það nú ekki mikið fyrir...." Það hafa verið fá, ef nokkur, innlegg um ódýr fargjöld. Þó er ég viss um að einhverjum kann að finnast það.
Einn vandi við verðlag er hversu huglægt og afstætt það er. Það sem einum þykir mikið þykir öðrum lítið. Það fer til dæmis eftir fjárhag viðkomandi en ekki síður eftir viðmiði og hversu mikilvæg eða góð þjónustan er sem keypt er. Gæði og mikilvægi er líka huglægt og afstætt fyrir hvert okkar. Við höfum öll rétt á að segja frá upplifun okkar og það er ágæt regla að gera ekki lítið úr upplifun annarra, þó hún passi illa inn í okkar eigin reynsluheim eða hugmyndir.
Undanfarna mánuði hefur upplifun fólks í hópnum aðalega beinst að þjónustu og þjónusturofi. Seinkun á flugi og hvaða áhrif það hefur þegar það fellur niður. Á sama tima hefur mikið minna heyrst um verðlag og ekki er það vegna þess að það hafi lækkað. Áreiðanleiki og gæði þjónustu er mikilvægur þáttur líka. Fyrir suma mikilvægari.
Það mikilvægasta fyrir flesta hlýtur að vera að geta með öruggum hætti nálgast nauðsynlega og mikilvæga þjónustu til höfuðborgarinnar sem ekki er hægt að nálgast nærri heimabyggð og jafnvel verið ákveðið að skerða eða leggja niður. Að gera það á viðráðanlegu verði er augljóst réttlætismál. Ef okkur er alvara um að viðhalda byggð sem víðast um landið, þá er það líka augljóst byggðamál.
Unnar Erlingsson
Austfirðingur og farþegi
Comments