Nýja íslenska stjórnarskráin
- Unnar Erlingsson
- Dec 31, 2018
- 1 min read
Nýtt upphaf, nýtt ár.
Ný framtíð blasir við.
Setning nýrrar Stjórnarskrár,
skal enga þola bið.

Ég var einn þeirra sem fékk nýútgefna bók með nýju íslensku stjórnarskránni í jólagjöf og búinn að lesa hana upp til agna og var reyndar ágætlega kynntur efni hennar fyrir. Ég fylgdist vel með ferlinu um tilurð hennar. Ég tók þátt í persónukjöri til Stjórnlagaráðs, sat alla opna fundi þess á sínum tíma og í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 kaus ég ásamt stórum meirihluta kjósenda með því "að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá".
Þetta er stjórnarskráin mín. Auðlesin og skýr. Tákn nýrra tíma sem mig langar að vera hluti að og mér finnst mikilvægt að stjórnvöld sjái til þess að sýndur vilji þjóðarinnar um lögfestingu nýrrar stjórnarskrár verði að veruleika.
Aðfararorð
Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.
Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.
Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.
Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.
Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.
Komentáře